Vinaheimar er frístundaheimili fyrir börn úr 1.-2. bekk í Ölduselsskóla og er rekið af frístundamiðstöðinni Miðbergi. Forstöðumaður er Pétur Kári Ólsen. Aðstoðarmaður forstöðumanns er Ingi Hrafn Pálsson.
Í Vinaheimum er opið alla daga eftir frá kl.13:40 og til kl. 17:00. Á starfsdögum skóla, foreldraviðtalsdögum og í jóla og páskaleyfi er opið allan daginn í Vinaheimum frá kl. 08:00 – 17:00 að undangenginni skráningu. Greitt er sérstaklega fyrir lengda viðveru á þessum dögum.
Vinaheimar eru lokaðir í vetrarleyfi skólans.
Frístundaheimilið Vinaheimar er starfrækt innan veggja skólans. Við höfum haft aðgang að íþróttasal og kennslustofum skólans.
Börnin mæta í Vinaheima kl. 13:40.
Alla daga er útivera fyrir 1.- 2. bekk.
Fastir liðir eru íþróttasalur, just dance og klúbba- og smiðjustarf. Einnig fylgjum við börnum sem stunda íþróttir hjá ÍR daglega í rútu sem keyrir þau á æfingar.
Klúbba- og smiðjustarf er í boði eftir útiveru, eða á milli klukkan 15 og 16 – 16.30. Þá er einnig í boði að fara í val. Meðal þess sem hefur verið í boði má nefna hekliklúbb, útivistarklúbb, bakstursklúbb, spilaklúbb, hárgreiðsluklúbb, margvíslegar listasmiðjur og föndur og margt fleira. Auk þess voru starfræktir sérstakir klúbbar í tengslum við hæfileikakeppni, leiklistar- og kvikmyndahátíðir frístundaheimilanna.
Daglega bjóðum við upp á ávexti og grænmeti frá 15.00 til 16.00. Við leggjum mikið upp úr fjölbreytilegu úrvali og höfum meðal annars haft epli, banana, appelsínur, melónur, perur, vínber, ananas, paprikur, gulrætur, gúrkur og fleira.
Boðið er upp á síðdegishressingu frá því að börnin mæta og til kl. ca. 14.30. Þar sem matsalurinn tekur aðeins um þrjátíu manns í sæti er þessi háttur hafður á að annað hvort stelpur eða strákar byrji, frekar en að allir borði í einu. Börn sem fara í íþróttarútuna byrja þó alltaf á því að borða um leið og þau koma svo þau borði áður en lagt er af stað á æfingu. Reynt er að leggja áherslu á gæði hráefnis og hollustu þegar kemur að síðdegishressingunni. Stuðst er við markmið Lýðheilsustöðvar um hollustu á frístundaheimilum við gerð matseðils. Í matsalnum er mjólkurvél og einnig geta börnin fengið sér vatn alla daga. Vatnsvélin er staðsett við móttöku Vinaheima.
Dæmi um matseðil er: Mánudagur – AB-léttmjólk með ávöxtum og musli, þriðjudagur – Trefjaríkt brauð og álegg (egg, kæfa, grænmeti, ostur, mysingur og skinka), miðvikudagur – Jógúrt með musli, fimmtudagur – Brauðmeti og álegg, föstudagur – Oft er eitthvað óvænt í matinn í enda vikunnar.
um
um