Reykjavíkurráð ungmenna fundar með borgarstjórn

 í flokknum: Bakkinn, Félagsmiðstöðvar (10-16 ára), Hellirinn, Hólmasel, Hundraðogellefu

Þriðjudaginn 28. febrúar fundar Reykjavíkurráð ungmenna með borgarstjórn í Reykjavík á opnum fundi í borgarstjórnarsal Ráðhúss Reykjavíkur. Til umfjöllunar eru tillögur frá ungu fólki í Reykjavík um það sem að þeirra mati má betur fara í borginni. Fundurinn hefst kl. 15 og er jafnframt sendur út á vefslóðinni http://reykjavik.is/fundirborgarstjornar/borgarstjorn-i-beinni

Fundur Reykjavíkurráðs ungmenna og borgarstjórnar er orðinn að árvissum viðburði og er þessi fundur sá sextándi í röðinni. Að þessu sinni liggja níu tillögur fyrir fundinum og snúa þær m.a. að bættri hinsegin fræðslu í grunnskólum, að ungmennaráð í borginni fái úthlutað árlegu fjármagni, að úrval vegan valkosta og grænmetis verði aukið í skólamötuneytum, að móttaka Reykjavíkurborgar á hælisleitendum og umsækjendum um alþjóðlega vernd verði bætt og að leitað verði leiða til að unglingar geti komið að ráðningu starfsfólks í félagsmiðstöðvum.

Reykjavíkurráð ungmenna hefur haft í nægu að snúast undanfarna mánuði en fulltrúar úr ráðinu tóku þátt í opnun Erró sýningar á Listasafni Reykjavíkur á dögunum, áttu fulltrúa á samnorrænni ráðstefnu í Þrándheimi í Noregi, skipulögðu starfsdag fyrir unglinga í öllum ungmennaráðum Reykjavíkur, sitja í hinum ýmsu starfshópum auk þess að eiga áheyrnarfulltrúa á fundum skóla- og frístundaráðs, íþrótta- og tómstundaráðs og fulltrúa í stjórn Barnamenningarhátíðar.

Markmið með starfsemi Reykjavíkurráðs ungmenna er m.a. að skapa vettvang og leiðir til þess að gera þeim sem eru yngri en 18 ára kleift að koma skoðunum sínum og tillögum á framfæri við viðeigandi aðila og þjálfast í lýðræðislegum vinnubrögðum. Í starfi sínu í vetur og síðastliðin ár hefur Reykjavíkurráðið fjallað um málefni ungs fólks og tekið þátt í ýmsum verkefnum sem fulltrúar ungs fólks í Reykjavík. Reykjavíkurráð ungmenna er jafnframt samráðsvettvangur allra ungmennaráða sem starfa í borginni.

Hér að neðan er yfirlit yfir tillögur Reykjavíkurráðs til borgarstjórnar.

 

Tillögur og greinargerðir vegna fundar Reykjavíkurráðs ungmenna með borgarstjórn 28. febrúar 2017

1) Elínborg Una Einarsdóttir, fulltrúi í ungmennaráði Breiðholts
Tillaga fulltrúa í ungmennaráði Breiðholts um árlegan styrk til ungmennaráða í Reykjavík:
Lagt er til að skóla- og frístundasvið Reykjavíkur úthluti árlegum styrk frá og með næsta fjárhagsári til allra ungmennaráða sem nýtist ungmennum á einn eða annan hátt í viðkomandi hverfi.
Greinargerð:
Með því að fá fast fjármagn eykst valdefling ráðanna, þau losna við óþarfa milliliði og minnka verkefnastopp þegar er beðið eftir styrkjum fyrir ákveðin verkefni, viðburði eða námskeið. Í löndum sem við berum okkur oft saman við, Svíþjóð og Finnlandi til dæmis, fá ungmennaráð árlegan styrk frá sveitarfélögum og ríkinu. Það er mjög mikilvægt fyrir ungmenni að finna að þau geti haft áhrif á nærumhverfi sitt og að þau finni að þeim sé treyst í að framkvæma með hag ungmenna að leiðarljósi. Það má líta á þessa úthlutun fjármagns sem verkefnasjóð ungmenna sem væri hægt að endurskoða árlega með tilliti til nýtingar og áhrifa hans.

2) Regína Gréta Pálsdóttir, fulltrúi í ungmennaráði Kjalarness
Tillaga fulltrúa í ungmennaráði Kjalarness um aukna þjónustu við flóttamenn og umsækjendur um alþjóðlega vernd:
Lagt er til að Reykjavíkurborg yfirfari fyrir árslok 2017 verklag vegna móttöku flóttamanna og umsækjenda um alþjóðlega vernd, auki fræðslu um málefni þessara hópa og skilgreini og tryggi flóttamönnum og umsækjendum um alþjóðlega vernd aðgengi að nauðsynlegri þjónustu.
Greinargerð:
Ungmennaráð Kjalarness vill að Reykjavíkurborg auki fræðslu um málefni flóttamanna og umsækjenda um alþjóðlega vernd því að óvissa og þekkingarleysi sem og skortur á upplýsingaflæði milli þeirra sem að málum standa og íbúa þeirra hverfa sem taka á móti þessum einstaklingum geta alið á fordómum. Ungmennaráðið vill líka gagnrýna skort á þjónustu við flóttamenn og umsækjendur um alþjóðlega vernd sem búa í póstnúmeri 116, ljóst er að þeir eiga erfitt með að sækja grunnþjónustu þar sem hún er ekki staðsett í hverfinu og almenningssamgöngur eru stopular.

3) Sigríður Halla Eiríksdóttir, fulltrúi í ungmennaráði Laugardals, Háaleitis og Bústaða
Tillaga fulltrúa í ungmennaráði Laugardals, Háleitis og Bústaða um aðkomu ungmenna að ráðningu hlutastarfsmanna í félagsmiðstöðvum:
Lagt er til að skóla- og frístundasvið leggi fram tillögur fyrir árslok 2017 um hvernig unglingar geti komið að og verið ráðgefandi við ráðningar hlutastarfsmanna í félagsmiðstöðvum borgarinnar.
Greinargerð:
Við í ungmennaráði Laugardals, Háaleitis og Bústaða leggjum til að ungmenni komi að ráðningu hlutastarfsmanna í félagsmiðstöðvum borgarinnar með ráðgefandi álit. Við viljum að tekið sé tillit til skoðana og athugasemda ungmenna á einhverjum tímapunkti í ráðningaferlinuog að þau fái að sitja viðtöl með ráðningaraðilum. Það er mikilvægt að ungmenni hverfisins fái að taka þátt í mótun frítímastarfs í sínu hverfi og við teljum að þetta sé hluti af því að ungmenni eigi hlutdeild í því starfi. Við óskum eftir því að þetta verið komið í ferli sem fyrst eða eigi síðar en fyrir árslok 2017.

4) Alex Snær Baldursson, fulltrúi í ungmennaráði Laugardals, Háaleitis og Bústaða
Tillaga fulltrúa í ungmennaráði Laugardals, Háaleitis og Bústaða um samræmdan opnunartíma félagsmiðstöðva í Reykjavík:
Lagt er til að Reykjavíkurborg gæti jafnræðis hvað varðar opnunartíma félagsmiðstöðva í borginni og að lágmarki verði opið þrjú kvöld í viku í öllum félagsmiðstöðvum frá og með hausti 2017.
Greinargerð:
Við í ungmennaráði Laugardals, Háaleitis og Bústaða leggjum til að kvöldopnanir verið fleiri í félagsmiðstöðvum borgarinnar og samræmis gætt hvað varðar opnunartíma. Í dag er bæði mikill munur innan hverfa sem og á milli hverfa í Reykjavík. Við óskum eftir því að kvöldopnanir í félagsmiðstöðvum séu að lágmarki þrjár í hverri viku og að þetta verði að veruleika eigi síðar en í lok ágúst 2017. Það er lágmarkskrafa að unglingum sé boðið upp á
opnanir í félagsmiðstöðinni á hverju föstudagskvöldi en ekki annað hvert eins og raunin er í mörgum hverfum.

5) Embla Ýr Indriðadóttir, fulltrúi í ungmennaráði Miðborgar og Hlíða
Tillaga fulltrúa í ungmennaráði Miðborgar og Hlíða um hinsegin fræðslu í grunnskólum:
Lagt er til að skóla- og frístundasvið Reykjavíkur auki og bæti hinsegin fræðslu í grunnskólum ekki seinna en á skólaárinu 2017-2018.
Greinargerð:
Grunnskóla og grunnskólabörn sárvantar aukna og bætta hinsegin fræðslu þar sem að afar lítið er um hana og er hún mjög stutt og alls ekki ítarleg og viljum við að hún eigi sér stað mikið fyrr en í kynfræðslunni sem á sér stað á unglingastigi.

6) Arndís María Ólafsdóttir, fulltrúi í ungmennaráði Vesturbæjar
Tillaga fulltrúa í ungmennaráði Vesturbæjar um aukið úrval í mötuneytum grunnskóla í Reykjavík:
Lagt er til að skóla- og frístundasvið Reykjavíkur sjái til þess að mötuneyti grunnskólanna auki úrval grænmetis- og vegan valkosta og tryggi að innihaldslýsing matvæla sé aðgengileg nemendum og foreldrum ekki síðar en á skólaárinu 2017-2018.
Greinargerð:
Ástæðan fyrir þessari tillögu er sú að það þarf virkilega að bæta grunnskólamötuneyti þar sem að margir nemendur eru óánægðir með matinn og við vitum varla hvað við erum að borða og krefjumst þess vegna innihaldslýsinga. Bæting á grænmetis- og vegan mat þarf auk þess að eiga sér stað þar sem að grænmetisætur fá afskaplega einhæfa fæðu og lítið er um vegan valkosti.

7) Sindri Smárason, fulltrúi í ungmennaráði Árbæjar og Holta
Tillaga fulltrúa í ungmennaráði Árbæjar og Holta um niðurgreiðslur á strætókortum fyrir börn:
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að nýta hluta af fjárveitingum Reykjavíkurborgar til Strætó bs til að niðurgreiða strætókort fyrir börn og bjóði upp á þann valmöguleika fyrir árið 2018.
Greinargerð:
Reykjavíkurborg eyðir mörgum milljónum króna árlega í kaup á strætómiðum og er það nýtt sem partur af fjárveitingum borgarinnar til Strætó. Ungmennaráð Árbæjar og Holta vill taka þetta skrefi lengra og nýta fjárveitingar til Strætó í niðurgreiðslu á strætókortum fyrir öll börn í Reykjavík og bjóða foreldrum og börnum upp á þann möguleika fyrir ársbyrjun 2018.

8) Helena Sif Gunnarsdóttir, fulltrúi í ungmennaráði Árbæjar og Holta
Tillaga fulltrúa í ungmennaráði Árbæjar og Holta um opinn fund ungmennaráða og stjórn Strætó bs:
Lagt er til að Reykjavíkurborg standi fyrir reglulegum opnum fundum með ungmennaráðum borgarinnar og stjórn Strætó bs og verði fyrsti fundur á haustönn 2017.
Greinargerð:
Börn og ungmenni eru stór hluti þeirra sem nýta sér almenningssamgöngur í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu. Þau þurfa oft að komast langar leiðir hvort sem það er á milli hverfa eða innan síns hverfis. Þar sem þessi aldurshópur er ekki með ökuleyfi og foreldrar oft í vinnu teljum við nauðsynlegt að ungmenni í Reykjavík fái reglulega fundi með stjórn Strætó til að ræða leiðakerfi og annað sem viðkemur strætósamgöngum borgarinnar.

9) Karitas Bjarkadóttir, fulltrúi í ungmennaráði Grafarvogs
Tillaga fulltrúa í ungmennaráði Grafarvogs um geðfræðslu í grunnskólum Reykjavíkur:
Lagt er til að Reykjavíkurborg bjóði upp á fagmannlega geðfræðslu fyrir nemendur á mið- og unglingastigi í grunnskólum Reykjavíkurborgar frá og með hausti 2019 með stuðningi skólaog frístundasviðs.
Greinargerð:
Ungmennaráð Grafarvogs leggur til að geðfræðsla verði aukin innan veggja grunnskóla borgarinnar. Einnig leggur ungmennaráð Grafarvogs til að geðfræðslan sé kennd í lífsleikni og sé e.t.v. lengri og samfelldari. Ungmennaráðið telur að skóla- og frístundasvið eigi að sjá til þess að allir grunnskólar bjóði upp á fagmannlega geðfræðslu fyrir nemendur á mið- og unglingastigi fyrir haustið 2019. Þetta má gera í samstarfi við samtök á við Geðhjálp eða Hugrúnu, geðfræðslufélag sálfræðinema við Háskóla Íslands.

Allar nánari upplýsingar veitir Hulda Valdís Valdimarsdóttir verkefnastjóri á fagskrifstofu frístundamála og starfsmaður Reykjavíkurráðs ungmenna, í síma 695-5021

 

Nýlegar færslur
Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Ólæsilegt? Breyttu textanum. captcha txt